Keflavíkurkirkja horfir mót hafi og lýsir sjómönnum leið er þeir sigla inn til hafnar. Þannig er saga hennar samofin sjósókn á Suðurnesjum sem er fléttuð átökum og lífshættu þar sem ljósið og trúin er haldreipi í ólgusjó og vísar örugga leið til hafnar.

Af þeim sökum snýr altari Keflavíkurkirkju í vestur, öfugt við það sem hefðbundið er um íslenskar kirkjur og sjónlínan er enn órofin til sjávar.

Bygging Keflavíkurkirkju var þrekvirki í litlu þorpi og stórhuga verkefni en hún var teiknuð af fyrsta íslenska arkitektinum, Rögnvaldi Ólafssyni (1874-1917). Hún er byggð í árdaga steinsteypunnar og þykir með þeim glæsilegri. Kirkjan tók við af timburkirkju sem skemmdist ófullgerð og var rifin eftir óveður 1902. Þrátt fyrir brotsjó var áfram haldið og ný kirkja vígð 1915.

Hér má finna upplýsingar um áhugaverða kirkjumuni Keflavíkurkirkju og sögu þeirra.

Altari

altari

Altarið er helgasti staður hverrar kirkju. Það er tákn fyrir himininn og ríki Guðs. Við göngum að altari þegar við neytum helgrar máltíðar með frelsaranum sem gefur sjálfan sig til fæðu.

Altari Keflavíkurkirkju var smíðað fyrir fyrri kirkju sem skemmdist í óveðri. Sú kirkja var smíðuð af Guðmundi Jakobssyni og var hún fokheld árið 1898. Framan á miðju altarinu er hringlaga op með hurð á. Á altarinu er standur fyrir Biblíu, gerður úr efni úr predikunarstólnum. Í grátum eru pílárar að mestu upprunalegir en við endurbætur kirkjunnar 2012 voru renndir þrír nýir til viðbótar að þeirra fyrirmynd.

predikunarstóll

Predikunarstóllinn var smíðaður fyrir fyrri kirkju. Hann er í kirkjuskipi frá 1915 fram að breytingum 1965 -1967 og var honum naumlega bjargað frá glötun og komið fyrir í Byggðasafni Reykjanesbæjar. Við endurgerð kirkjunnar 2012 var honum komið fyrir í kirkjunni aftur þar sem hann var færður í því sem næstupprunalega mynd og oðraður.

Stóllinn er úr tré og allhár, málaður
með bronsuðum englamyndum úr gifsi sem eru seinni tíma viðbót, talið er að undir þeim megi finna myndir af postulum.

Áletrun er eftirfarandi: Sælir eru þeir sem heyra guðs orð og varðveita það (Lúk 11.28.).

Altaristafla

Sérstaða kirkjuskips Keflavíkurkirkju er altaristaflan. Myndefni hennar er merkasta ræða mannkynssögunnar, Fjallræða Jesú:

Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði: Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki (Matt 5.1-3.).

Listamaðurinn er Ásgrímur Jónsson (1876-1958) og í samræmi við aukna þjóðernisvitund má sjá íslenskt landslag þótt klæðaburður sé í biblíumyndastíl. Fólkið er í forgrunni, fólkið sem hlýðir á boðskapinn og byggir kirkju utan um hann. Konur í Kvenfélaginu Freyju söfnuðu fyrir altaristöflunni og gáfu kirkjunni. Undir hennier áletrun: Verið þér því fullkomnir eins og yðar himneski faðir er fullkominn (Matt. 5.48.).

Skírnarfontur

Skírnarfontur kirkjunnar er útskorinn úr japanskri eik, gerður af Marteini Guðmundssyni myndskera frá Merkinesi í Höfnum.

Fonturinn er fimmhyrndur. Útskorinn blómakrans umlykur skírnarskál úr silfri. Á hliðarflötum eru útskornar myndir. Á einni er mynd af Jesú þar sem hann bendir upp til himins. Á annarri hlið beinir barn í tröppum sjónum í átt til Jesú, á þriðju hlið er keltneskur kross, einnig á fjórðu hlið, en á þeirri fimmtu er engill í tröppum er horfir í átt til Jesú. Guðmundur, sonur Marteins, var fyrirmyndin að englinum og sagði svo frá: Ég var fimm ára þegar pabbi skar út og átti ég að sitja kyrr.

Fonturinn kom í kirkjuna 1945.

Söngtafla

Söngtaflan kom í kirkjuna 1920, smíðuð af Jóni Halldórssyni húsgagnasmíðameistara í Reykjavík. Henni fylgdu 50 máluð smáspjöld með númerum. Stærð söngtöflu er 91×67 cm. Hún var gjöf frá Kvenfélaginu Freyju.

Engill vonarinnar

Altarisverk í Kapellu vonarinnar ber nafnið Engill vonarinnar, málað af Kristínu Gunnlaugsdóttur listmálara. Innblástur verksins er fenginn úr ljóði Þuríðar Guðmundsdóttur um vonina þar sem segir m.a.: „…og sjáðu hvar þau sitja lítil og veikbyggð vetrarblómin eins og vonin.” Trúarleg tákn verksins vísa til 23. Davíðssálms. Myndin prýðir minningar-kort Keflavíkurkirkju ásamt ljóðinu.

Verði ljós

Í kirkjuskipi eru þrír ljósahjálmar úr kopar sem færðir voru kirkjunni að gjöf 1921. Sá stærsti er gerður fyrir 32 kerti en tveir eru fyrir 16 kerti.

Þegar kirkjan var raflýst 1923 voru ljósahjálmarnir þræddir fyrir rafmagn. Við stækkun kirkjunnar 1965 – 1967 voru ljósahjálmarnir aflagðir og nýir komu í þeirra stað. Þeir voru svo settir upp að nýju fyrir jólin 1974, eftir að Bjarni Guðmundsson rafvirkjameistari hafði unnið fórnfúst starf við að endurnýja í þeim rafmagn.

Davíðsstjarna

Á turni Keflavíkurkirkju er hringgluggi þar sem gluggapóstar mynda Davíðsstjörnu. Hún samanstendur af tveimur þríhyrningum sem mynda sexhyrnda stjörnu. Oft er hún túlkuð sem sameining andans og efnisins: uppsnúni þríhyrningurinn táknar himin, Guð og hið andlega, en sá niðursnúni jörðina, manninn og hið efnislega. Sameining þeirra gefur til kynna jafnvægi milli þess andlega og veraldlega, milli Guðs og manns.

Í dag lýsir kristalljósakróna upp rýmið allan sólarhringinn sem minnir vegfarendur á að trúa á ljósið og vonina. Ljósakrónan var gjöf frá sóknarbarni.

Hverjum klukkan glymur

Nýjar kirkjuklukkur voru keyptar frá Þýskalandi 1963. Þeim var komið fyrir í kirkjuturni og settur á rafrænn hringibúnaður. Þær klukkur sem kallað höfðu til helgra tíða frá 1944 voru þá teknar niður. Önnur var gefin Njarðvíkurkirkju, hin var sett upp í þáverandi kapellu í Keflavíkurkirkjugarði.

Klukkan í turni kirkjunnar

Stundaklukka Keflavíkurkirkju var áður í Dómkirkju Reykjavíkur, gefin af Th. A. Thomsen kaupmanni 1897 til fyrstu kirkju Keflavíkursóknar sem skemmdist í óveðri. Ekkert slagverk fylgdi klukkunni og leið því nokkur tími þar til henni var komið fyrir í kirkjuturni 1923. Turnklukkan var trekkt upp með stórri sveif en var tekin niður 1963 er hún hafði verið ógangfær í nokkur ár. Í staðinn var sett upp ný klukka með upplýstum skífum. Voru það útgefendur Keflavíkurtíðinda sem stóðu fyrir fjársöfnun til kaupa á nýrri klukku með svokallaðri klukkuveltu. Klukkan úr Dómkirkjunni er nú á Byggðasafni Reykjanesbæjar.

Orgel

Kvenfélagið Freyja gaf kirkjunni nýtt harmoníum þegar kirkjan var vígð en í gegnum tíðina hefur hljóðfærið þróast í takt við þarfir safnaðarins. Fljótlega var keypt stærra orgel og árið 1952 var fjárfest í rafmagnsorgeli sem var mikil bylting. Það er síðan 1963 sem nýtt sex radda pípuorgel kom í kirkjuna. Við stækkun kirkjuskips 1965 – 1967 var keypt 16 radda pípuorgel og átti Systrafélag Keflavíkurkirkju þar stærstan hluta í fjársöfnun. Árið 2020 var orgelið endurgert frá grunni sem markaði lok framkvæmda við endurgerð kirkjunnar sem hófust 2012.

Kirkjubekkir

Við breytingar á kirkjuskipinu 1965 – 1967 komu nýir bólstraðir bekkir í kirkjuna. Þeir voru að stærstum hluta gjöf frá Systra-félagi Keflavíkurkirkju. Þegar kirkjuskipið var fært til fyrra horfs árið 2012 voru nýir bekkir settir upp með gömlu bekkina sem fyrirmynd. Einnig var stuðst við bekki Hafnarfjarðarkirkju, systurkirkju Keflavíkurkirkju, sem Rögnvaldur Ólafsson teiknaði jafnframt. Græni liturinn á sessunum er upprunalegur litur á pílárum í handriði sönglofts sem varðveittir voru á Byggðasafni Reykjanesbæjar. Trésmiðja Ella Jóns smíðaði bekkina.

Safnaðarheimili

Í lok 9. áratugar síðustu aldar og í tilefni af 80 ára vígsluafmæli Keflavíkurkirkju hófst undirbúningur að byggingu nýs safnaðarheimilis. Söfnuðurinn hafði vaxið hratt og var orðinn einn sá stærsti á landinu. Efnt var til samkeppni um hönnun á safnaðarheimili og fór það svo að íbúar fengu að kjósa um tillögur. Tillagan sem varð fyrir valinu er eftir Helgu Benediktsdóttur, Elínu Kjartansdóttur og Harald Örn Jónsson og hlaut byggingin menningarverðlaun DV árið 2001.

Kirkjulundur var formlega tekinn í notkun árið 2000 og tók við af gamla safnaðarheimilinu sem þjónað hafði því hlutverki frá 1971. Í kirkjulundi eru fjölnota salir, garður, kapella, eldhús og fundaaðstaða. Þar fer fram tónlistarstarf, barnastarf, félagsstarf, sjálfboðastarf, fræðsla, erfidrykkjur og stórar athafnir. Einnig er þar vinnuaðstaða starfsfólks Keflavíkurkirkju.