Vatnaskógarferð haust 2024
Gert er ráð fyrir öllum fermingarbörnum í Vatnaskógarferðina þar sem hún er stór liður fermingarfræðslunnar. Ekki þarf að skrá sérstaklega í ferðina en foreldrar/forráðafólk er beðið að senda tölvupóst á prestana ef börnin hyggjast ekki fara í Vatnaskóg.
Heimsókn í Vatnaskóg skipar sérstakan sess í fræðslunni en leitun er að skemmtilegri stað til að dvelja á! Eyrarvatn býður upp á siglingar og jafnvel svolítið sund og aðstaðan á staðnum er með besta móti með íþróttasal, hjólabrettarömpum auk ágætra svefnskála og útisvæði sem býður upp á leik og fræðslustundir undir bláhimni.
Lagt er af stað frá Keflavíkurkirkju mánudag 23. sept. kl. 13 eftir skóla og hádegismat. Dvölin stendur yfir í tvo sólarhringa og er komið heim miðvikudag 25. sept. kl. 15:30.
Skólarnir fá tilkynningu um ferðina en það er í höndum foreldra að biðja um leyfi fyrir börnin.
Börnin taki með sér:
- Svefnpoka eða sæng, kodda og lak
- Hlý föt fyrir útiveru (regnföt og stígvél)
- Föt til skiptanna (nægir sokkar)
- Íþróttaföt (innanhússkór ef til eru)
- Sundföt og handklæði
- Náttföt
- Tannbursta, tannkrem og sápu
- Leyfilegt er að taka með hjólabretti
- Leyfirlegt er að taka blautbúning
Ekki er leyfilegt að taka með síma. Ef fermingarbörnin óska eftir að hringja í heim þá hringja þau úr símum prestanna.
Auk þess er ekki leyfilegt að taka með gos, orkudrykki, sælgæti eða rafrettur.
Gjaldið í Vatnaskóg er 18.500 kr. en upphæðin nemur 29.100 kr. ef foreldrar/forráðamenn eru utan Þjóðkirkju. Kröfur eru sendar í heimabanka á það foreldri sem er skráð sem „foreldri 1“ við skráningu í fermingarfræðslu.
Ef börnin taka inn lyf, þá þurfa þau að berast prestunum í sérmerktum umbúðum. Einnig þurfa að berast upplýsingar ef börnin búa við sérþarfir af einhverjum toga.
Hægt er að vitja óskilamuna í þjónustumiðstöðina við Holtaveg 28 í Reykjavík, s. 588 8899.
Ef þörf krefur er hægt að hringja í Vatnskóg, s. 433 8959 á meðan börnin dvelja þar. Þá eru prestarnir með síma á sér, Erla (8492194) og Fritz Már (8884321).
Gullna reglan
Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. (Matt 7.12)