Keflavíkurkirkja er stærst kirkna á Suðurnesjum. Í kirkjuskipinu eru sæti fyrir 230 manns og má bæta öðru eins við í safnaðarheimili fyrir fjölmennar athafnir. Keflavíkursókn telur um 8000 íbúa þar af 73% í þjóðkirkjunni. 

saga kirkjunnar

Kirkja var byggð í Keflavík rétt fyrir aldamótin 1900, timburkirkja sem fauk áður en smíði hennar var fulllokið skömmu eftir aldamótin. Sá atburður setti söfnuðinn í mikinn vanda þar sem talsverð skuld var á byggingunni og erfitt reyndist að hefja byggingu nýrrar kirkju með skuldina á bakinu. Ólafur Á. Olavsen annar eigandi verslunar H.P. Duus, sýndi þann rausnarskap að bjóðast til að greiða skuld kirkjunnar að hluta og hann ásamt systrum hans lögðu einnig umtalsvert fé í byggingarsjóð nýrrar kirkju. Rögnvaldur Ólafsson (1874-1917) teiknaði kirkjuna. Guðni Guðmundsson, múrari var yfirsmiður.
Sr. Kristinn Daníelsson, sóknarprestur og prófastur vígði kirkjuna 14. febrúar 1915 og fagnar kirkjan því senn aldarafmæli. Altaristaflan var máluð árið 1916 og er hún eftir listamanninn Ásgrím Jónsson. Kór var við kirkjuna árið 1966 og kirkjuskipinu var breytt ári síðar með róttækum hætti samkvæmt teikningu Ragnars Emilssonar húsameistara.
1. júní árið 2000 blessaði sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands safnaðarheimilið, Kirkjulund og vígði nýja kapellu, Kapellu vonarinnar. Arkitektar safnaðarheimilisins eru Elín Kjartansdóttir, Haraldur Örn Jónsson og Helga Benediktsdóttir. Byggingin fékk menningarverðlaun Dagblaðsins árið 2001.
Ráðist var í endurbætur á kirkjuskipi kirkjunnar vorið 2012 og 1. desember það árið var kirkjan tekin í notkun að nýju. Páll V. Bjarnason arkitekt hannaði kirkjuna. Meðal annars var gamla predikunarstólnum og grátunum komið fyrir að nýju í kirkjunni en þau höfðu verið fjarlægð á sínum tíma. Enn á eftir að endurnýja söngloftið og glugga kirkjunnar.