Jesús sagði: ,,Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.” Mt.28.18-20.
Í heilagri skírn er skírnþegi tekinn inn í kirkju Krists. Í hinni evangelisk – lúthersku kirkju, sem Þjóðkirkjan er hluti af, er algengast að barn sé skírt meðan það enn er ómálga. Samkvæmt fyrirmælum Jesú Krists er barn skírt til nafns föður og sonar og heilags anda. Það er helgað Guði með Orði hans og bæn og ausið vatni.
Kaflinn úr Mattheusarguðspjalli 28. 18 – 20 sem skráður er hér að framan er kallaður innsetningarorð skírnarinnar eða kristniboðsskipunin. Þegar foreldrar bera barn sitt til skírnar eru þau að hlýða henni.
Meginreglan er sú að barn sé skírt í kirkju og að viðstöddum söfnuði eða fulltrúum hans, en gömul hefð er fyrir því á Íslandi að skírn geti farið fram á heimili barnsins.
Gömul hefð er einnig fyrir því að barnið sem skírt er sé fært í hvítan skírnarkjól sem er tákn fyrirgefningar syndanna. Kjóllinn er síður, sem táknar það að skírnarbarnið á að vaxa í trú, von og kærleika.
Aðstandendur velja barninu skírnarvotta. Skírnarvottar heita einnig guðfeðgin og eru aldrei þau aldrei færri en tvö, karl og kona (eins og felst í orðinu), en mest geta verið fimm. Æskilegt er að í það minnsta eitt guðfeðginana sé á þeim aldri að það geti fylgt barninu eftir til fullorðinsára. Foreldrar og guðfeðgin játa trúna fyrir hönd barns síns og skuldbinda sig þar með til að ala barnið upp í kristinni trú.
Skírnin tengir kristnar kirkjur innbyrðis. Þrátt fyrir ólíkar áherslur kirkudeildanna í ýmsum efnum hafa þær flestar náð samkomulagi um að viðurkenna skírn hinna sem sameiginlegan grundvöll.
,,Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans? Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins. Rm.6.3-4.
Skírnarsálmar
252 Ó, blíði Jesú, blessa þú það barn er vér þér færum nú
503 Ó, Jesú bróðir besti
504 Ástarfaðir himinhæða
551 Í bljúgri bæn
585 Full af gleði fyrir lífsins undri
253 Guð faðir sé vörður og verndari þinn
254 Til þín ég leita
250 Til mín skal börnin bera
Ritningarlestrar við skírn
Jesús segir: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá til nafns föður, sonar og hins heilaga anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hefi boðið yður. Og sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar. (Matt 28.18-20)
Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. (Mark 10.13- 16)