Endurgerð á kirkjuskipi Keflavíkurkirkju 2012-2020
Ráðist var í endurbætur á kirkjuskipi Keflavíkurkirkju sumarið 2012 í tilefni af komandi 100
ára vígsluafmælis hennar. Markmið framkvæmda var að endurheimta formfagra og stílhreina
klassíska kirkju sem Rögnvaldur Ólafsson arkitekt teiknaði í upphafi. Keflavíkurkirkja þótti
lengi vel með þeim glæsilegri á landinu.
Við endurbætur í gegnum árin hafði útlit Keflavíkurkirkju breyst töluvert. Með
vitundarvakningu á menningarsögulega og listrænu gildi húsa ásamt nýjum þjóðminjalögum
sem tóku gildi 1990 var Keflavíkurkirkja friðuð. Kominn var tími á nauðsynlegt viðhald og var
horft til þess sem vitað var um upprunalegt útlit kirkjuskips með faglegri vinnu Páls V.
Bjarnasonar arkitekts.
Veggklæðningar, predikunarstóll, grátur, veggljós og kirkjubekkir var fjarlægt úr kirkjuskipi.
Einnig voru steindir gluggar teknir niður sem ekki tóku mið af upprunalegri gluggagerð og
hleyptu lítilli birtu inn. Altari úr gömlu kirkjunni sem fauk ófullgerð var fært í upprunalegt horf,
sem og rammi um altaristöflu. Predikunarstóll og grátur, sem bjargað hafði verið frá glötun við
endurgerðina 1965 – 1967, var varðveitt á Byggðasafni Reykjanesbæjar. Við endurgerð 2012
var því komið fyrir og lagfært í því sem næst upprunalega mynd og oðrað. Í grátum eru
pílárar að mestu upprunalegir en voru renndir þrír nýir pílárar til viðbótar að þeirra
fyrirmynd. Stóllinn er úr tré og allhár, málaður með bronsuðum englamyndum úr gifsi sem eru
seinni tíma viðbót, talið er að undir þeim megi finna myndir af postulum. Áletrun er
eftirfarandi: Sælir eru þeir sem heyra guðs orð og varðveita það (Lúk 11.28.).
Skipt var um gólfefni og við endurgerðina komu í ljós upprunalegir litir sem horft var til við
gerð nýrra kirkjubekkja sem smíðaðir voru eftir upprunalegri fyrirmynd. Þá var kórloftið
stækkað vegna væntanlegra komu nýs orgels og þar smíðaðir pílárar úr upprunalegu lofti.
Gluggar í kirkjuskipi voru endurnýjaðir með opnanlegum fögum, rafmagn og pípulagnir
endurnýjaðar og pottofnar sem hæfa við aldur kirkjunnar settir upp.
Fjöldi sjálfboðaliða og handverksfólk af Suðurnesjum komu að þessu metnaðarfulla verkefni
þar sem alúð var lögð í hvert smáatriði.
Niðurstaðan er látlaus og stílhrein nýklassísk kirkja, þar sem birtan fær notið sín. Þannig
hafði Rögnvaldur Ólafsson arkitekt hugsað hana í upphafi.