Skráning í þjóðkirkjuna fer fram á vef Þjóðskrár.

Hjá island.is getur þú séð hvort þú sért skráður í Þjóðkirkjuna undir mínar upplýsingar. Auðvelt er að skrá sig. Með því að fara í gegnum QR kóða hér að neðan eða inná þessa síðu skráning í Þjóðkirkjuna. 

Þjóðkirkjan

Aðild að þjóðkirkjunni er staðfest með skráningu í þjóðskrá. Ef þú ert óviss um það hvort þú ert skráð(ur) í þjóðkirkjuna geturðu haft samband við Þjóðskrá Íslands eða sóknarprestinn.

Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni. Þjóðkirkjan byggir á játningum frumkirkjunnar og játar postullega trú heilagrar, almennrar kirkju innan evangelísk-lúterskrar hefðar í ljósi Ágsborgarjátningarinnar frá 1530.

Söfnuðir

Sóknin er grunneining þjóðkirkjunnar og vettvangur þjónustu hennar á hverjum stað. Sóknin er félag þess fólks innan þjóðkirkjunnar sem myndar söfnuð, þar sem fagnaðarerindið er boðað og sakramentin um hönd höfð og fólk leitast við að lifa samkvæmt boði Krists.

Söfnuðir þjóðkirkjunnar eru 266 talsins Hver söfnuður er landfræðilega afmarkaður og ber heitið „sókn“. Hver sókn er í raun félag með skilgreint hlutverk. Æðsta vald félagsins er árlegur aðalfundur þess, félaginu er stýrt af stjórn sem aðalfundurinn kýs á nokkurra ára fresti. Félagið hefur sjálfstæðan fjárhag og rekstur.

Þjónusta

Frumskylda sóknar er helgihald, kærleiksþjónusta og fræðsla sem nærir og eflir trú sem starfar í kærleika. Þjóðkirkjan hefur með höndum margs konar félagslega þjónustu, kærleiksþjónustu safnaða og neyðaraðstoð innanlands og þróunar og neyðarhjálp á alþjóðavettvangi um farveg Hjálparstarfs kirkjunnar. Prestar og djáknar í sóknum og á stofnunum veita fólki stuðning, ráðgjöf, sálgæslu auk leiðsagnar í andlegum efnum. Stuðningur við fólk í hjúskaparerfiðleikum er umtalsverður þáttur í starfi presta og með Fjölskylduþjónustu kirkjunnar er veitt dýrmæt þjónusta til stuðnings fjölskyldum.

Þjónusta á öllum æviskeiðum

Guðsþjónustur helgidaganna og helgar athafnir þjóðkirkjunnar, svo sem skírn, ferming, brúðkaup, útför, eru áningarstaðir á lífsins leið, með veganesti orðs og atferlis sem styrkja samfélagið milli fólks og kynslóða og efla von og lífsþrótt. Þar verður hin opna þjóðkirkja sýnileg, með sína löngu hefð og sögu og sterka framtíðarsýn í ljósi Jesú Krists.
Í blíðu og stríðu lífsins þörfnumst við stuðnings og samfylgdar annars fólks, fjölskyldu og vina. Þjóðkirkjan hefur um aldir lagt til rými, iðkun, tákn og orð til að tjá gleði og sorg, ein og með öðrum. Í einrúmi og opinberlega er beðið fyrir fólki og samfélagi. Barnastarf kirkjunnar er stuðningur við trúaruppeldi heimilanna þar sem börnum er kennt að elska Guð og biðja. Leiðsögn í andlegum efnum, fræðsla og uppbygging í trú er mikilvægur þáttur í þjónustu kirkjunnar. Sálgæsla presta og djákna reynist ómetanleg hjálp þegar glímt er við dýpstu og örðugustu lífsspurningar.