Bruninn í Skildi
Bruninn í Skildi 90 ár liðinn
Þann 30. desember 1935 varð eldur laus á jólatrésskemmtun barna í samkomuhúsinu Skildi í
Keflavík með þeim afleiðingum að 10 létu lífið, þar af sjö börn.
Atburðinum var mikið áfall fyrir lítið samfélag. Aldrei hafa fleiri látið lífið í bruna á Íslandi svo
vitað sé. Missirinn var mikill og mörg hlutu alvarleg brunasár.
Skjöldur var helsta samkomuhúsið í bænum og rekið af Ungmennafélagi Keflavíkur. Þar fór
fram fjölbreytt starfsemi og má þar nefna bíósýningar, skemmtanir og dansleiki, einnig voru
haldnar íþróttaæfingar félagsins.
Skjöldur var gjarnan notaður fyrir helgihald þegar Keflavíkursöfnuður átti ekki eigin kirkju frá
1906 – 1915. Þar hélt sóknarnefnd fundi sína eftir að kirkjan reis. Fyrir jólin 1923 var
rafstrengur lagður frá Skildi og Keflavíkurkirkja raflýst.
Mörg unnu óeigingjarnt hjálparstarf þetta örlagaríka kvöld og komu þannig í veg fyrir enn
meira tjón og mannskaða. Sorgin var lamandi fyrir lítið samfélag. Atburðurinn var lengi
hjúpaður þögn og er enn mörgum sem tengjast erfiður. Eftir atburðinn var ekki kveikt á lifandi
ljósi á mörgum heimilum.
Þau sem létust:
Kristín Halldórsdóttir, 76 ára
Guðrún Eiríksdóttir, 56 ára
Loftur Hlöðver Kristinsson, 10 ára
Borgar Björnsson, 5 ára
Guðbjörg Sigurgísladóttir, 7 ára
Sólveig Helga Guðmundsdóttir, 7 ára
Anna Guðmundsdóttir, 10 ára
Árni Jóhann Júlíusson, 8 ára
Þóra Eyjólfsdóttir, 65 ára
Alma Sveinbjörg Þórðardóttir, 11 ára
Ljóð tileinkað harmþrungnum foreldrum eftir slysið 30. desember 1935
En hvar er litla Sólveig með sólarbros á vanga?
Með söknuði í barmi við spyrjum daga alla.
En á hinsta kveldi er við leggjum vegu langa
Að leita hver að sínu, synjar Drottinn valla,
En gefur okkur aftur gleðina og trúna,
Og góðu hjartans börnin sem okkur vantar núna.
Það er því æðsta listin þolinmæði að þreyja,
Því það fáum við öll, þó seinna verði, – að deyja.
G. ST.
Hvað á að gera við Skjaldarreitinn?
Keflavíkurkirkja, í samstarfi við Reykjanesbæ, efnir til samtals með spurningunni: Hvað
eigum við að gera við Skjaldarreitinn? Með von um að samtal sem leiðir til fallegrar útkomu
til minningar þeirra sem létust í brunanum og af virðingu þeirra sem lifðu og fjölskyldur sem
syrgðu.