Kirkjulundur 25 ára

Góðtemplarahúsið, sem síðar fékk nafnið Skjöldur þegar Ungmennafélag Keflavíkur festi
kaup á húsinu, var alloft notað fyrir messur þegar Keflavíkursöfnuður átti ekki eigin kirkju frá
1906 – 1915. Þar hélt sóknarnefnd fundi sína eftir að kirkjan reis. Fyrir jólin 1923 var
rafstrengur lagður frá Skildi og Keflavíkurkirkja raflýst. Seinna meir var félagsheimilið Stapi
nýtt fyrir samkomur og þá var helgihald í Gagnfræðaskólanum og nágrannakirkjum þegar
unnið var að viðhaldi kirkjunnar.

Sóknarnefnd ákveður að festa kaup á Norðfjörðsgötu 11 eftir að Helga Geirsdóttir erfði
Keflavíkurkirkju eigum sínum. Húsið er tekið í notkun sem safnaðarheimilið Kirkjulundur
1971. Norðfjörðsgata 11 var teiknað af Rögnvaldi Ólafssyni, sem einnig teiknaði
Keflavíkurkirkju, og var það lengst af þekkt sem læknishúsið. Þar bjó og starfaði
héraðslæknirinn Þorgímur Þórðarson um árabil. Húsið eyðilagðist í eldi 1980 og var opnað á
ný ári seinna eftir endurgerð og stækkun.

Í lok 9. áratugar síðustu aldar og í tilefni af 80 ára vígsluafmæli Keflavíkurkirkju hófst
undirbúningur að byggingu nýs safnaðarheimilis. Söfnuðurinn hafði vaxið hratt og var orðinn
einn sá stærsti á landinu. Efnt var til samkeppni um hönnun á safnaðarheimili og fór það svo
að íbúar fengu að kjósa um tillögur. Tillagan sem varð fyrir valinu er eftir Helgu
Benediktsdóttur, Elínu Kjartansdóttur og Harald Örn Jónsson og hlaut byggingin
menningarverðlaun DV árið 2001.

Kirkjulundur var formlega tekið í notkun árið 2000 og tók
við af gamla Kirkjulundi sem þjónað hafði því hlutverki frá 1971 en var orðið of lítið fyrir
vaxandi safnaðarstarf. Í Kirkjulundi eru fjölnota salir, garður, kapella, eldhús, skrifstofur og
fundaraðstaða. Þar fer fram tónlistarstarf, barnastarf, félagsstarf, sjálfboðastarf, fræðsla,
erfidrykkjur og stórar athafnir.  Einnig er þar vinnuaðstaða starfsfólks Keflavíkurkirkju.