
Sýning í tilefni af 110 ára vígsluafmæli keflavíkurkirkju og 25 ár frá byggingu safnaðarheimilis
Keflavíkurkirkja fagnar því að 110 ár eru liðin frá byggingu Keflavíkurkirkju og 25 ár frá því að Safnaðarheimilið Kirkjulundur var tekið í notkun með afmælissýningu í kirkjunni þar sem gestir geta kynnt sér sögu kirkjunnar og fræðst um muni í kirkjuskipinu.
Bygging Keflavíkurkirkju var þrekvirki í litlu þorpi og stórhuga verkefni en hún var teiknuð af fyrsta íslenska arkitektinum Rögnvaldi Ólafssyni (1874-1917) og þykir hún með glæsilegri kirkjum hans. Kirkjan tók við af timburkirkju sem fauk í óveðri 1902 áður en smíði hennar var lokið. Þrátt fyrir brotsjó var áfram haldið og ný kirkja vígð árið 1915.
Á sýningunni verður sagt frá endurbótun á kirkjunni sem stóðu yfir frá 2012 – 2020, fjallað er um byggingu Safnaðarheimilis árið 2000, sagt frá sögu orgelsins og að lokum sagt frá brunanum í Skildi en þann 30. desember n.k. verða 90 ár liðin frá atburðinum sem markaði spor sín í litlu samfélagi suður með sjó.
Gestir geta kynnt sér kirkjumuni og sögu þeirra bæði í kirkjunni sem og í bæklingi og á hér á vef kirkjunnar en þar verða jafnframt birtar ítarlegri upplýsingar og viðtöl við Ragnheiði Ástu Jónsdóttur fyrrverandi formann sóknarnefndar og Pál Bjarnason arkitekt.
Sýningarstjóri er Dagný Maggýjar en um hönnun sá Jón Ágúst Pálmason.
Hvað á að gera við Skjaldarreitinn?
Keflavíkurkirkja, í samstarfi við Reykjanesbæ, efnir til samtals með spurningunni: Hvað eigum við að gera við Skjaldarreitinn? Með von um að samtal sem leiðir til fallegrar útkomu til minningar þeirra sem létust í brunanum og af virðingu þeirra sem lifðu og fjölskyldur sem syrgðu.
Sendu inn þína hugmynd hér