Sumardagurinn fyrsti er ekki kirkjulegur helgidagur en þó birtingarmynd af trúar- og vonardegi sem sýnir okkur staðfestu þjóðarinnar er við segjum að sumarið sé komið sama hvernig viðrar.

Þennan dag verður haldið í skrúðgöngu frá skátaheimili Heiðabúa að Keflavíkurkirkju kl. 12:30.

Sú fallega hefð að halda árlega skátamessu með Heiðabúum á sumardaginn fyrsta á sér langa sögu í Keflavíkurkirkju. Þá verða léttir sálmar og skátalög sungin og spiluð af Arnóri og æðruleysingjunumen hópinn skipa organistinn, Guðbrandur Einarsson, Kristján Jóhanssson og Sólmundur Friðriksson. Messuþjónar eru Ólöf Sveinsdóttir og Kristinn Þór Jakobsson. Þó sóknarpresturinn sé vígður skáti verður hún í hempu en ekki skátaskyrtu því sú er löngu orðin og lítil. Á þessum bjrtsýnisdegi Íslendinga er gott að koma í kirkju og leggja það sem veldur okkur vetri í huga í hendur Guðs og biðja sól í hjarta, sól í sinni.

 

Messan hefst kl. 13 og við hvetjum unga og eldri skáta jafnt aðra að koma og njóta. Á eftir bjóða Heiðabúar upp á fría útidagskrá í 88-húsinu frá kl. 15-18. Kaffihús og sjoppa á staðnum.