Kór Keflavíkurkirkju
Félagslög.

1. gr.

Félagið heitir Kór Keflavíkurkirkju.  Kt. 530279-3079.

2. gr.

Tilgangur félagsins er: að annast söng við messur og aðrar kristilegar athafnir í Keflavíkursókn svo og að starfa að annarri sönglist er henta þykir á hverjum tíma.

3. gr.

Stjórn félagsins skipa 3 félagar:  Formaður, ritari og gjaldkeri.  Stjórnin er kosin til tveggja ára í senn.  Kosning stjórnar fer fram á því ári, þegar ártalið ber upp á slétta tölu. Óski stjórnarmaður lausnar á kjörtímabilinu skal kosið sérstaklega í hans stað á aðalfundi eða löglega boðuðum aukafundi.

4. gr.

Formaður kemur fram fyrir hönd félagsins sem umboðsmaður þess og undirritar samninga fyrir þess hönd.  Einnig stýrir hann og stjórnar félagsfundum eða tilnefnir fundarstjóra í sinn stað.  Formaður haldi nákvæma skýrslu um störf félagsins og fjölda athafna á vegum kórsins.

Ritari skal halda gerðabók yfir fundi félagsins og stjórnarfundi.  Hann skal einnig halda félagaskrá um kórfélaga með upplýsingum um heimilisföng, síma, fæðingardag og ár og hvernær félagar byrjuðu í kórnum.  Ritari heldur einnig skrá yfir allar mætingar í messum, æfingum og öðrum athöfnum á vegum kórsins.

Gjaldkeri annast öll fjármál félagsins, bæði hvað varðar innheimtu og gjöld.  Hann heldur nákvæman rekstrarreikning og varðveitir fé félagsins í banka eða sparisjóði. 

Stjórarmeðlimir eigi hvenær sem er kost á upplýsingum um fjárhag félagsins og aðgang að upplýsingum og reikningum þess.

5. gr.

Félagar eru þeir sem taka þátt í æfingum og söng kórsins að staðaldri.  Sá sem vill gerast félagi í kórnum, þarf að gangast undir raddprófun hjá söngstjóra.  Reynslutími er lágmark 3 mánuðir.  Teljist viðkomandi hæfur, að mati söngstjóra, að þeim tíma liðnum, telst hann/hún vera fullgildur félagi kórsins.  Greiðslur fyrir mætingar reiknast ekki hjá nýjum félaga fyrr en viðkomandi félagi hefur lokið reynslutíma, nema sérstaklega sé um það samið.

Söngfólk sem kemur úr öðrum kirkjukórum er undanþegið reynslutíma.
Söngstjóra er heimilt að sækja söngkrafta utan raða kórsins eftir þörfum og aðstæðum á hverjum tíma.

6. gr.

Stjórn kórsins ber að semja um greiðslur fyrir allan söng kórsins.  Það fé sem kórinn fær fyrir söng við guðsþjónustur, jarðarfarir og aðrar athafnir sem greitt er fyrir, greiðist til félagsmanna í samræmi við fjölda mætinga hvers og eins við guðsþjónustur, æfingar, jarðarfarir og aðrar athafnir á vegum kórsins.

Söngstjóra er heimilt að velja úr röddum eins og best hentar hverju sinni í athafnir.  Þetta á við allar athafnir sem kórinn tekur þátt í og hefur verið beðinn um að sinna.

Vinni kórinn sér inn fé á annan hátt t.d. með sérstökum söngskemmtunum eða öðrum sameiginlegum verkefnum, þá skal það fé renna í þann félagssjóð sem notast í þágu félagsins eins og best þykir henta á hverjum tíma.  Hér er t.d. átt við ferðasjóð.   Félagsfundur samþykkir ráðstöfun þessara fjármuna.  Það komi síðan skýrt fram í reikningum félagsins með ráðstöfun þessa fjárs.

Verði félagið af einhverjum ástæðum leyst upp og starfsemi þess lögð niður eða sameinuð öðru félagi, skal stjórnin ráðstafa eignum félagsins, ef einhverjar eru, samkvæmt samþykkt félagsfundar sem tekur ákvörðunina um að leggja félagið niður eða sameina það öðru félagi.

7. gr.

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok febrúar ár ár hvert og skal hann boðaður með minnst viku fyrirvara.  Dagskrá skal liggja frammi við upphaf fundarins.

Fyrir aðalfund skal stjórn fara yfir lög félagins og meta hvort ástæða sé til að leggja fram breytingartillögur.
Á aðalfundi skal formaður flytja skýrslu stjórnar og gjaldkeri skal leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins.

Á aðalfundi skal kosin stjórn félagsins auk tveggja félagslegra skoðunarmanna ársreikninga félagsins.  Sjá nánar í 3.grein laga félagsins um árafjölda stjórnar.  Aðra embættismenn í félaginu skal kjósa árlega.

Kjósa skal sérstaklega í hverja stöðu í stjórn félagsins og í þessari röð:  Formann, ritara og gjaldkera.  Síðan skal kjósa í þau önnur embætti sem lög félagsins kveða á um.  Ef tillögur berast um fleiri en einn félaga í hvert embætti skal fara fram leynileg kosning milli félaga um viðkomandi embætti.

Kjósa skal einn nótnavörð sem annast geymslu og úthlutun nótna til kórfélaga í samstarfi við söngstjóra. Nótnavörður velji sér tvo aðstoðarmenn úr röðum kórfélaga.

Kjósa skal fjóra raddformenn, einn fyrir hverja rödd, og skulu þeir sjá til þess í samstarfi við söngstjóra að tilskilinn fjöldi mæti í þeirra rödd í boðaðar athafnir, að nýliðar í innan raddarinnar fái góðar móttökur og stuðning, og vera leiðandi fyrirmynd innan sinnar raddar. Komi upp vandamál innan raddar skal raddformaður leita lausna þess í samstarfi við formann. Kórfélagar tilkynna raddformanni sínum, ef um forföll er að ræða, hvort heldur er fyrir athafnir eða æfingar. Sé um forföll í messuhóp að ræða skal kórfélagi finna annan í sinn stað. Kórfélagar láta sinn raddformann vita hvort sem þeir komast eða komast ekki í boðaðar jarðarfarir.

Raddformenn boða félaga í þær athafnir sem söngstjóri eða formaður felur þeim að boða til.

Þá skal kjósa þriggja manna Skemmtinefnd og ef þurfa þykir í ferðanefnd sem annst undirbúning ferðalaga kórsins í samráði við stjórn kórsins.

Kjósa skal tveggja manna Vefsíðunefnd fyrir heimasíðu kórsins http://kor.keflavikurkirkja.is, einn vefstjóra sem skal hafa yfirumsjón með heimasíðunni og vefara sem læri á heimasíðukerfið og sjái um myndasafn heimasíðunnar.
 
Kjósa skal einn stallara sem sér til þess í samstarfi við söngstjóra að útlit kórsins og uppröðun sé eins og best verður á kosið. Stallari velji sér tvo samstarfsmenn til að fjalla um lausnir varðandi kórklæðnað í samstarfi við stjórnendur kórs og kirkju.

8. gr.

Hætti einhver félagi að sækja athafnir eða æfingar að tilefnislausu og án þess að hafa samband við raddformann sinn eða formann félagsins í einn mánuð eða lengur, skoðast viðkomandi ekki sem félagi lengur.  Sá sem úr félaginu gengur, getur ekki gert neinar kröfur á eignir þess.

9. gr.

Aukafund í félaginu skal halda ef stjórn félagsins ákveður það.  Einnig ef 1/3 félagsmanna óskar eftir að haldinn verði aukafundur.  Aukafund skal boða með minnst viku fyrirvara eins og aðalfund félagsins.  Frávik frá fundarboðun þarf samþykki 2/3 hluta félagsmanna.

10. gr.

Lögum þessum má aðeins breyta með 2/3 greiddra atkvæða, enda sé þá a.m.k. helmingur félaga mættir á fundinn og fundurinn hafi verið boðaður með löglegum fyrirvara.

11. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á aðalfundi félagsins 28. janúar 2009.