Karlakvartettinn Kóngar mun hjóla í allar kirkjur á Suðurnesjum þann 1 júlí n.k. og taka lagið en markmiðið er að safna áheitum í orgelsjóð Keflavíkurkirkju.
Kvartettinn skipa þeir Arnór B. Vilbergsson kantor Keflavíkurkirkju og stjórnandi, Elmar Þór Hauksson, Sveinn Sveinsson, Sólmundur Friðriksson og Kristján Jóhannsson, þó ekki óperusöngvarinn að norðan.
Kóngar hafa ávallt verið stórhuga og upphaflega var meiningin að hjóla hringinn í kringum landið með viðkomu í völdum kirkjum og syngja nokkur lög en þar sem það var bæði tímafrekt kom upp sú hugmynd að hjóla í kirkjurnar á Reykjanesskaganum sem tilheyra Kjalarnesprófastdæmi..
Kóngar munu hjóla á milli kirkna á einum degi og eru allir velkomnir að taka þátt og hjóla með. Þeir munu syngja í hverri kirkju nokkur lög og sálma og verður bíll á staðnum sem getur hvílt hjólreiðamenn á leiðinni ef þörf krefur en leiðin er samtals 113 km.
Lagt verður af stað frá Keflavíkurkirkju kl. 9:00.
Arnór hvetur sem flesta bæjarbúa til þess að heita á kónga en allur ágóði fer í orgelsjóð Keflavíkurkirkju. Þeir sem vilja styðja kóngareiðina get lagt inn á reiknng 0121-15-350005, Kt 680169-5789.