Aðventan hefst um næstu helgi og mikið hlökkum við til að ganga inn í þennan dásamlega tíma í aðdraganda og undirbúning jólanna, fæðingahátíðar Frelsarans.

Á sunnudaginn (1.des) verður mikið um dýrðir í Keflavíkurkirkju. Um morguninn Kl.11 kemur Stoppleikhópurinn í heimsókn til okkar og sýnir jólaleikritið, Jólin hennar Jóru en auðvitað byrjum við með því að syngja saman við kveikjum einu kerti á. Hér er um að ræða frábært jólaleikrit fyrir börn á öllum aldri.

Kl.20 á sunnudagskvöld verður fyrra aðventukvöldið okkar í kirkjunni og í þetta sinn leika fermingarbörnin okkar aðalhlutverk. Séra Fritz leiðir stundina, fermingarbörn flytja okkur fallega texta og syngja nokkur lög ásamt Jóni Jósepi Snæbjörnssyni (Jónsi í Svörtum Fötum), sem mun einnig flytja okkur hugleiðingu kvöldsins.