Sunnudaginn 1. maí kl. 11 verður flutt orgeltónlistarævintýrið Lítil saga úr orgelhúsi  sem leiðir hlustandann inn í töfraheim pípuorgelsins á skemmtilegan hátt. Söguna gerði Guðný Einarsdóttir, organisti en tónlistina samdi Michael Jón Clarke, tónskáld.

Sagan fjallar um orgelpípurnar sem búa í orgelhúsinu. Það gengur á ýmsu í samskiptum hjá orgelpípunum og Sif litla sem er langminnst, er orðin mjög þreytt á þessu eilífa rifrildi. Hún ákveður að fara í burtu úr orgelhúsinu og finna sér betri stað að búa á. Þá reynir nú heldur betur á hinar orgelpípurnar og þær fara að leita að Sif litlu.

Sögumaður er Bergþór Pálsson, söngvari, Guðný Einarsdóttir leikur á orgelið og myndskreytingar gerði Fanney Ósk Sizemore. Orgelævintýrið er ætlað börnum og fullorðnum. Allir velkomnir.